Saga

Saga listmeðferðar

Í aldanna rás hefur myndsköpun gegnt margskonar hlutverkum og eitt þeirra verið þáttur í fyrirbyggjandi heilsuvernd og geðhjálp. Sögulega hefur myndsköpun tengst þróun geðlæknisvísinda og sálarfræði á Vesturlöndum. Á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu átti sér stað mikil þróun á sviðum vísinda, lista og menningar sem hafði áhrif á þróun listmeðferðar sem fræði- og starfsgreinar. Má nefna sem dæmi mannúðlegri meðferð á geðsjúklingum. Ýmsir evrópskir geðlæknar veltu því fyrir sér hvernig hægt væri að styðjast við myndverk sjúklinga sinna til sjúkdómsgreiningar og höfðu trú á að sköpunarferlið gæti jafnvel hjálpað sjúklingum til heilsu. Gefnar voru út bækur og greinar eftir evrópska lækna um myndverk sjúklinga.

Á 19. öld skapaðist hefð fyrir því í Evrópu að listamenn væru fengnir til að starfa með sjúklingum á geðsjúkrahúsum. Í seinni heimstyrjöldinni fóru listamenn, geðlæknar og sálfræðingar að átta sig á að myndræn tjáning reyndist oft vera eina leið hermanna og annarra fórnarlamba stríðsins, til að tjá skelfilega reynslu sína. Sú samvinna sem þróaðist milli þessara fagaðila lagði grunninn að því fagi sem listmeðferð er orðin í dag. Fram eftir 20. öldinni er hægt að sjá hvernig starf listamanna fór að tengjast inn í ýmsar stofnanir til aðstoðar fólki sem átti við geðræn vandamál að stríða þar sem geðlæknar og sálfræðingar voru að leita nýrra leiða í meðferð sinni á sjúklingum. Þetta krafðist þess að listamenn þurftu að afla sér þekkingar innan sálarfræði og geðlæknisfræða. 

Kenningar Sigmund Freud og Carl G. Jung höfðu mikil áhrif á fræðin í byrjun en síðar komu til þroskaþróunarkenningar eins og kenningar Eric Ericson, D.W.Winnicott, John Bowlby, Melanine Klein og fleiri. Fræðimenn eins og Rodha Kellogg og Victor Lowenfeld rannsökuðu hvernig þroskaþróun birtist í barnateikningum. Upp úr 1945 fóru svo að birtast skrif um kenningar sem byggðust á sérstöðu listmeðferðar sem meðferðarúrræðis. Má þar nefna nöfnin Adrian Hill, Irene Champernowne, Margaret Naumburg, Edith Kramer, Myra Levic, Rudolf Arnheim, og Arthur Robbins. 

Nú í lok þessarar aldar hafa nýlegar rannsóknir á starfssemi heilans veitt enn betri þekkingu og skilning á minninu, hvernig það geymir upplýsingar í myndrænu formi og einnig á svokölluðu tilfinningaminni sem rökhugsun nær ekki yfir. Einnig hefur orðið til betri skilningur á áhrifum áfalla á minnið. Myndsköpun hefur oft hjálpað til að nálgast tilfinningar tengdar áföllum sem geymast í minninu og hafa áfram áhrif á líðan og hegðun einstaklingsins. Í þessu samhengi skal bent á að listmeðferðarfræðingar eru víða erlendis fengnir til að vinna við áfallahjálp t.d. á stríðshrjáðum svæðum eða þar sem hafa orðið náttúruhamfarir.

 

Listmeðferð á Íslandi

Á árunum 1957 - 1973 var starfandi á barnadeild Landsspítalans (síðar Barnaspítala Hringsins) myndlistarkennari með eins og hálfs árs sérnám frá barnaspítölum í London og Kaupmannahöfn í tilfinningameðferð fyrir börn á sjúkrahúsum. Sú þekking og reynsla sem byggðist upp í ofangreindu starfi á Landsspítalanum fæddi m.a. af sér hugmyndina um að halda Norrænt námsþing í listmeðferð og var það námsþing (fyrsta Norræna námsþingið í listmeðferð) haldið í Reykjavík 1975. Síðan hefur Norrænt námsþing í listmeðferð verið haldið annað hvert ár til skiptis í hverju Norðurlandanna. 

Ennfremur má geta þess að nokkrar greinar sem byggja á ofangreindri starfssemi og fjalla um listmeðferð fyrir börn á sjúkrahúsum hafa verið birtar í alþjóðlegum barnalæknatímaritum. Erindi um sama efni hafa verið flutt á alþjóðlegum barnalæknaþingum víða um heim. 

Á barna- og unglingageðdeild hefur verið starfandi listmeðferðarfræðingur síðastliðin þrjátíu ár og hefur sérhæft sig í starfi með börnum og unglingum með greiningu ADHD og ADD. 

Þó listmeðferðarfræðingar séu enn fámenn stétt, þá eru þeir starfandi víða innan heilbrigðis-, félags- og menntakerfisins hér á landi. Innan skólakerfisins, bæði í grunnskólum og sérskólum, hefur verið unnið með börnum og unglingum sem eiga við tilfinninga-, hegðunar- og félagslega erfiðleika að stríða. Listmeðferðarfræðingar starfa meðal annars á Hrafnistu með öldruðum, í átröskunarteymi á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og í Foreldrahúsi.  Einnig reka listmeðferðarfræðingar einkastofur og vísa þangað meðal annarra barnalæknar, geðlæknar, sálfræðingar, barnaverndarnefndir og félagsmálayfirvöld.

Nýverið var framkvæmd rannsókn á listmeðferð í grunnskóla á Íslandi þar sem þróuð var listmeðferðaraðferð fyrir börn sem hafa orðið fyrir áföllum og eiga við námsörðugleika að stríða. Fræðigreinar og bókakaflar sem byggja á ofangreindum rannsóknum hafa verið birtar hérlendis og erlendis í ritrýndum ritum. Erindi um sama efni hafa einnig verið flutt á ýmsum ráðstefnum innanlands sem utan.