Spurt og svarað

Algengar spurningar

Er þörf fyrir listmeðferðarfræðinga hérlendis?

Já. Þeir listmeðferðarfræðingar sem eru menntaðir í greininni hafa getað skapað sér starfsvettvang. Listmeðferðarfræðingar eru fámenn stétt svo hver einstaklingur er í brautryðjendahlutverki. 

Listmeðferðarfræðingar hafa starfað víða bæði innan heilbrigðis-, mennta- og félagskerfis (á ýmsum deildum Landspítalans-Háskólasjúkrahúss, í grunnskólum, Fjölmennt og með öldruðum).

Enn hefur ekki verið hægt að anna eftirspurn utan af landi.

Hvaða nám liggur til grundvallar listmeðferð?

Til að mega starfa sem listmeðferðarfræðingur þarf að ljúka tveggja ára meistaranámi frá viðurkenndum háskóla erlendis. Grunnkrafa er um BA/BS gráðu eða sambærilegt námstig. Algeng grunnmenntun er sálfræði, myndlist, þroskaþjálfun, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf, kennaramenntun. Það þarf að vera hluti af grunnmenntunni að hafa lokið ákveðnum áföngum/einingum í sálfræði og myndlist og er það tilgreint í inntökuskilyrðum viðkomandi viðurkennda háskóla. Skila þarf inn portfolio af eigin myndlistarverkum. Inntökuskilyrði taka mið af fleiri þáttum en menntun samanber starfsreynslu með fólki og lífsreynslu. 

Starf listmeðferðarfræðings getur verið mjög krefjandi og krefst þess að viðkomandi búi yfir góðri þekkingu, færni og næmleika (sensitivity). Þeir sem sækjast eftir námi í listmeðferð þurfa að búa yfir persónulegum þroska og sveigjanleika. 

Nám á meistarastigi í listmeðferð er fræðilegt á sviði sálarfræði, sjónrænnar listsköpunarog  kenninga um sköpunarferlið. Námið felur einnig í sér starfsþjálfun undir handleiðslu og persónulega sjálfvinnu hjá reyndum 
meðferðaraðila. Þeir listmeðferðarfræðingar sem starfa nú á Íslandi hafa lokið meistaranámi frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Spáni. Á Bretlandi og í Hollandi er starfsheitið löggilt. 

Nám í listmeðferð á Norðurlöndunum? 

Viðurkennt meistaranám í listmeðferð er enn í mótun á Norðurlöndunum þótt boðið hefur verið upp á nám í Finnlandi og Svíþjóð um langt skeið. Þrjú Norðurlönd taka þátt í störfum Evrópusamtaka háskóla, EcArTE, sem vinna að samræmingu og eflingu viðurkennds náms í listmeðferðarfræðum í Evrópu. Það eru Svíþjóð, Finnland og Noregur. Á heimasíðu samtakanna er hægt að fá nánari upplýsingar um nám í þessum þrem löndum. 

Sjá nánar:

http://www.ecarte.info/membership/directory/sweden.htm

http://www.ecarte.info/membership/directory/finland.htm

http://www.ecarte.info/membership/directory/norway.htm

Ekki er til viðurkennt nám í listmeðferðarfræðum í Danmörku.

Nám í listmeðferð annars staðar í Evrópu?

Í Bretlandi er listmeðferð orðið vel þróað fag og hefur starfsheitið hlotið löggildinu. Þar starfar mjög sterkt fagfélag, The British Association of Art Therapists. Á heimasíðu þeirra er að finna upplýsingar um skóla sem bjóða upp á viðurkennt nám í listmeðferð á Bretlandi.

Sjá nánar: http://www.baat.org/

Félag listmeðferðarfræðinga á Íslandi mælir með námi í Bretlandi.

Ecarte eru samtök evrópskra háskóla (European Consortium for Arts Therapies Education) sem vinna að því að samræma nám í listmeðferðarfræðum í Evrópu.

Á heimasíðu þeirra er að finna lista yfir skóla í nokkrum Evrópulöndum sem eru að móta eða bjóða nú þegar upp á viðurkennt nám.

Sjá nánar: http://www.ecarte.info/membership/directory

Nám utan Evrópu?

Í Bandaríkjunum er listmeðferð orðið vel þróað fag og þar starfar mjög sterkt fagfélag, The American Art Therapy Association. Sjá nánar: http://www.arttherapy.org/

Félag listmeðferðarfræðinga á Íslandi mælir með námi í Bandaríkjunum.

Hvaða stéttafélagi tilheyra listmeðferðarfræðingar?

Þeir hafa tiheyrt BHM (Bandalagi háskólamanna). Ef listmeðferðarfræðingur starfar innan skólakerfis og hefur einnig kennsluréttindi getur hann tilheyrt stéttarfélagi kennara. Laun eru samkvæmt stofnanasamningum. Laun í sjálfstæðum rekstri eru í takti við sambærilegar starfsgreinar. 

Er starfsheitið “listmeðferðarfræðingur” löggilt starfsheiti?

Ekki enn. Umsókn um löggildingu starfsheitis hefur legið hjá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, nú Velferðarráðuneytinu, frá því árið 2000. Lög um heilbrigðisstéttir hafa verið í endurskoðun í um áratug. Ný lög tóku gildi 1. janúar 2013 og sótti þá Félag listmeðferðarfræðinga aftur um löggildingu starfsheitisins. 
Sú umsókn hefur enn ekki fengið endanlega afgreiðslu því niðurstaða ráðuneytis fól í sér að fyrst yrði gerð athugun á þörf fyrir menntun og mannafla innan heilbrigðiskerfisins.  Rúmu ári seinna er sú vinna enn í gangi og er í höndum 
nefndar á vegum Embættis landlæknis. Vegna umsóknarferlis Félags listmeðferðarfræðinga á Íslandi um löggildingu starfsheitisins “listmeðferðarfræðingur” þá er mjög mikilvægt að þeir sem huga að námi í listmeðferð velji eingöngu viðurkennt meistaranám í listmeðferð við háskóla sem fagfélög viðkomandi landa benda á sbr. The American Art Therapy Association og The British Association of Art Therapists.

Ég er að skrifa ritgerð um listmeðferð. Hvert get ég leitað að upplýsingum?

Ef þú ert að leita að upplýsingum um efni í ritgerð, heimildir, viðtöl fyrir ritgerð eða annað sem tengist verkefninu þá vinsamlegast hafðu samband við tengilið félagsins sem heldur utan um þessi mál. 

Núverandi tengiliður er:

Unnur Óttarsdóttir listmeðferðarfræðingur. Netfang hennar er: unnur@unnurarttherapy.is

Hvað er Nordisk Seminar?

Nordisk Seminar /Norrænt námsþing í listmeðferð hefur verið haldið annað hvert ár til skiptis í hverju Norðurlandanna síðan 1975. Frumkvöðull þess var Sigríður Björnsdóttir listmeðferðarfræðingur sem starfaði á barnadeild Landspítalans (síðar Barnaspítlala Hringsins) á árunum 1957-1973. Sú þekking og reynsla sem byggðist upp í ofangreindu starfi á Landsspítalanum fæddi m.a. af sér hugmyndina um að halda Norrænt námsþing í listmeðferð og var það fyrsta haldið í Reykjavík 1975.

Næsta námsþing verður haldið í Svíþjóð 2021.

Hvað er EcArTE?

Ecarte eru samtök evrópskra háskóla (European Consortium for Arts Therapies Education) sem vinna að því að samræma nám í  Evrópu í meðferðaleiðum sem nota listir (myndlist, tónlist, leiklist, dans/hreyfingu) sem tjáningarform. Samtökin halda ráðstefnur annað hvert ár. 

Sjá nánar: http://www.ecarte.info/