Siðareglur og lög

Listmeðferðarfræðingum sem hafa viðurkennda menntun í listmeðferð gefst kostur á að vera félagar í FLÍS, Félagi listmeðferðarfræðinga á Íslandi.

Félagsmönnum ber að fylgja siðareglum FLÍS.

Það telst vera brot á siðareglum að mismuna einstaklingum á grundvelli kynþáttar, menningar, kyns, hjúskaparstöðu, líkamlegrar og andlegrar getu, trúarbragða, kynferðis og aldurs.

Listmeðferðarfræðingur skal ávallt hafa hagsmuni skjólstæðings í huga. Henni/honum ber að stuðla að því að að læknisfræðileg velferð skjóstæðings sé í höndum læknis.

Listmeðferðarfræðingi ber að viðhafa fagleg samskipti við skjólstæðing sinn:

Listmeðferðarfræðingur skal ekki misnota hæði (dependency) skjólstæðings á kynferðislegan, fjárhagslegan né á nokkurn annan hátt.

Óleyfilegt er að stofna til persónulegs sambands við skjólstæðing á meðan á meðferð stendur.

Listmeðferðarfræðingur skal ekki starfa undir áhrifum áfengis eða lyfja sem geta truflað getu hennar/hans til að sinna starfi sínu.

Við upphaf meðferðar gerir listmeðferðarfræðingur skýran samning við skjólstæðing eða forráðamann hennar/hans hvað varðar umgjörð meðferðarsambandsins (therapeutic frame). Sú umgjörð mótast af starfsumhverfi hverju sinni.

Samskipti listmeðferðarfæðings og skjólstæðings er trúnaðarmál.

Starfi listmeðferðarfræðingur á opinberri stofnun skal hún/hann halda þær trúnaðarreglur sem stofnunin setur.

Í einkastarfi skal ríkja trúnaður á milli listmeðferðarfræðings og skjólstæðings nema öryggi skjólstæðings, listmeðferðarfæðings eða almennings sé ógnað.

Listmeðferðarfæðingur aflar ekki upplýsinga um skjólstæðing frá öðrum án samþykkis hans, nema þar sem lagaskylda býður að það sé gert. Þá skal einungis afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að vinna að málinu. Fari upptaka fram verður að afla skriflegs samþykkis skjólstæðings. Heimilt er að víkja frá trúnaðarskyldu, ef skjólstæðingur fer skriflega fram á að ákveðin persóna eða stofnun fái upplýsingar.

Listmeðferðarfræðingi ber að kynna sér ábyrgð sína í starfi varðandi meðferð skjólstæðinga og leggja sig fram um að fylgjast með breytingum á lögum og reglum varðandi starfsgreinina.

Listmeðferðarfræðingur stundar starf sitt með faglega heildarsýn að leiðarljósi og byggir á fræðilegum kenningum, niðurstöðum rannsókna og starfsreynslu í listmeðferð. Listmeðferðarfræðingur viðheldur þekkingu sinni og endurnýjar hana. Hann fylgist vel með nýjungum í starfi og uppfyllir þau skilyrði sem gerð eru til starfsins á hverjum tíma.

Ef listmeðferðarfræðingur vill nota munnlegt, myndrænt eða ritað efni úr listmeðferðinni til rannsókna, kennslu, útgáfu eða sýninga skal:

 • fá leyfi skjólstæðings eða forráðamanns ef nokkur kostur er og gera henni/honum ljóst hvernig efnið verði notað. Þessi regla fellur niður þrem árum eftir að meðferð lýkur, en þó skal ávallt gæta nafnleyndar.
 • hafa velferð skjólstæðings ávallt í fyrirrúmi og hverfa frá úgáfu ef hætta er á að hún trufli meðferðina.
 • halda nafnleynd skjólstæðings.

Æskilegt er að listmeðferðarfræðingur fylgist með eigin færni í starfi með því að sækja handleiðslu, annað hvort á vinnustað eða á eigin vegum. Fyrstu þrjú starfsár listmeðferðarfræðingsins ber honum að sækja handleiðslu.

Listmeðferðarfræðingum í einkarekstri er heimilt að auglýsa þjónustu sína.

Listmeðferðarfræðingur hlýðir samvisku sinni og sannfæringu.

Listmeðferðarfræðingur getur synjað að framkvæma listmeðferðarverk, sem hann treystir sér ekki til að bera faglega ábyrgð á.

Siðareglurnar eru nýttar til þess að taka afstöðu til kvartana á hendur listmeðferðarfræðingum. Við mat stjórnar á kvörtunum er tekið mið af því hvort listmeðferðarfræðingurinn hafi velt fyrir sér siðferðilegri hlið málsins áður en hann tók siðferðilega ákvörðun. Listmeðferðarfræðingi sem fær vitneskju um að annar listmeðferðarfræðingur fari ekki eftir siðareglunum ber að koma þeirri vitneskju til stjórnar Félags listmeðferðarfræðinga á Íslandi.

 

Lög Félags Listmeðferðarfræðinga á Íslandi

1.   grein

Heiti félagsins er; Félag Listmeðferðarfræðinga á Íslandi. Lögheimili og varnarþing þess er í Reykjavík. Heimasíða félagsins er www.listmedferdisland.com. Félagssvæði tekur til alls landsins.

 2.   grein

Hlutverk félagsins er að;

 a)    Þróa og efla framgang listmeðferðar á Íslandi.

 b)   Upplýsa og fræða fagaðila og almenning um listmeðferð og notagildi hennar.

 c)    Stuðla að rannsóknum og gæðum faglegrar vinnu jafnt á stofnunum sem og í einkarekstri.

 d)   Halda utan um réttindi og skyldur félagsmanna.

 e)    Að stuðla að því að þeir sem fást við listmeðferð uppfylli fyllstu kröfur að því er varðar menntun og siðgæði í starfi.

 f)     Að stuðla að samstarfi og samheldni milli félagsmanna.

 g)    Að kynna nýja félagsmenn.

 3.   grein

Tilgangi sínum hyggst félagið ná;

 a)    Með reglulegum fundum stjórnar svo og félagsfundum.

 b)   Með greinaskrifum í blöð og fagtímarit.

 c)    Með því að stuðla að handleiðslu og handleiðsluhópum innan félagsins.

 d)   Með því að sækja um aðild að stéttarfélagi.

e)    Með lögverndun starfsheitis.

 4.   grein

Ákvæði um inngöngu í félagið eru þessi:

 a)    Full aðild er heimil þeim er lokið hafa námi í listmeðferð á háskólastigi frá viðurkenndri stofnun, þ.e. stofnun er mætir kröfum félags listmeðferðarfræðinga í viðkomandi landi.

 b)   Auka aðild er heimil þeim er stunda nám í listmeðferð. Einnig þeim sem hafa lokið námi í skyldum greinum og/eða hafa áhuga á faginu. Þeim er óheimilt að starfa við listmeðferð og nota starfsheitið listmeðferðarfræðingur.

c)    Sækja skal skriflega um aðild að félaginu.

 5.   grein

Óheimilt er að koma fram í nafni félagsins eða nota nafn þess án heimildar stjórnar.

 6.   grein

Rétt til setu á fundum félagsins hafa allir félagsmenn a) og b) samkvæmt 4.grein. Eingöngu félagsmenn samkvæmt a) lið 4. greinar hafa atkvæðisrétt á félagsfundum

 7.   grein

Heimilt er að víkja félögum úr félaginu ef þeir greiða ekki félagsgjöld í 2 ár samfellt. Einnig er heimilt að víkja þeim félögum úr félaginu sem gerast brotlegir við siðareglur félagsins. Stjórn félagsins fjallar um málið hverju sinni.

 8.   grein

Upphæð félagsgjalda er ákveðin á aðalfundi félagsins. Þeir sem eru komnir á eftirlaun og heiðursfélagar eru undanþegnir félagsgjöldum. Álagningu félagsgjalda skal lokið fyrir 1. júní (gjalddagi) og eindagi félagsgjalda er 1. júlí.

 9.   grein

Reikningsár félagsins er 1. apríl til 31. mars. Reikningum skal skilað til skoðunarmanns reikninga sjö dögum fyrir aðalfund.

 10.   grein

Aðalfundur félagsins skal haldinn á tímabilinu 10. -31. apríl ár hvert. Til aðalfundar skal boða með formlegum hætti, með minnst 14 daga fyrirvara. Tillögur um lagabreytingar skulu fylgja aðalfundarboði. Til að mál nái fram að ganga þarf samþykki 2/3 fundarmanna.

 11.  grein

 Dagskrá aðalfundar skal vera;   

1. Skýrsla stjórnar.

2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

3. Umræður um skýrslu og reikninga.

4. Lagabreytingar.

5. Kosning stjórnar fyrir næsta starfsár.

 6. Önnur mál.

 12.  grein

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundum félagsins. Tillögum til lagabreytinga skal skilað með aðalfundarboði. Nái breytingatillaga samþykki 2/3 fundarmanna telst hún samþykkt. Aðalfundur telst lögmætur ef helmingur félagsmanna mætir til fundarins.

13.  grein

Stjórn félagsins skipa 5 menn: formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur.

Hlutverk formanns er:

 • Formaður skal boða til félags- og stjórnarfunda svo oft sem þess gerist þörf og stýrir þeim.
 • Formaður kemur fram fyrir hönd félagsins út á við.
 • Formaður undirritar öll bréf fyrir hönd félagsins.
 • Formaður skal sjá til þessa að lög félagsins séu uppfærð í samræmi við lagabreytingar sem samþykktar eru á aðalfundi.
 • Formaður kynnir lög og siðareglur félagsins fyrir nýjum félagsmönnum.
 • Formaður tryggir að öll gögn sem berast til og eru send félaginu séu skráð og geymd í gögnum félagsins.
 • Formaður tekur saman skýrslu stjórnar fyrir aðalfund.
 • Formaður leitar sátta í ágreiningsmálum sem kunna að koma upp innan félagsins.

 Hlutverk gjaldkera er:

 • Gjaldkeri hefur eftirlit með sjóðum félagins.
 • Gjaldkeri hefur yfirsýn yfir tekjur og gjöld félagins.
 • Gjaldkeri sér um fjármál félagsins, innheimtu félagsgjalda og hefur umsjón með reikningum félagsins.
 • Gjaldkeri þarf að samþykkja allar greiðslur félagsins.
 • Gjaldkeri ber allar greiðslur úr félagasjóði undir samþykki stjórnar.
 • Gjaldkeri sér um gerð ársreikninga og að skila þeim til skoðunarmanns reikninga fyrir aðalfund ár hvert.
 • Gjaldkeri les upp reikninga félagsins á aðalfundi og svarar fyrirspurnum.
 • Ef gjaldkeri getur ekki gegnt sínu hlutverki af einhverjum ástæðum skal annar stjórnarmeðlimur taka hans stað.

Hlutverk ritara er:

 • Ritari skal vera formanni innan handar í öllum málum og gegna starfi formanns í forföllum hans.
 • Ritari sér um að rita fundargerðir stjórnar- og félagsfunda.
 • Ritari sendir stjórnarmönnum/félagsmönnum fundargerðir sé þess talin þörf.
 • Ritari les fundargerð síðasta fundar þegar það á við.
 • Ritari sér um að heimilis-síma- og netfangalisti félagsmanna sé uppfærður á hverjum aðalfundi og sendir út til félagsmanna.
 • Ritari er umsjónarmaður heimasíðu félagsins.
 • Ef ritari getur ekki gegnt sínu hlutverki af einhverjum ástæðum skal annar stjórnarmeðlimur taka hans stað.

Hlutverk meðstjórnanda er:

 • Meðstjórnendur eru staðgenglar annarra stjórnarmanna eftir aðstæðum.
 • Meðstjórnendur sjá um undirbúning og skipulagningu félagsstarfs ásamt öðrum stjórnarmeðlimum.
 • Meðstjórnendur veita öðrum stjórnarmönnum aðhald og stuðning.
 • Meðstjórnendur kalla eftir upplýsingum annarra stjórnarmanna um gang mála og taka virkan þátt í að fylgja eftir ákvörðunum stjórnar.

14.  grein

Kosning formanns fer fram á aðalfundi, að öðru leyti skiptir stjórn sjálf með sér verkum.

 15.  grein

 Stjórnin er kjörin til tveggja ára í senn.

 16.  grein

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum félagsins.

 17.  grein

Stjórnarfundi skal boða með formlegum hætti með 7 daga fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarhæfur ef minnst 3 stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.

18.  grein

Stjórn félagsins er skylt að efna til almenns félagsfundar ef minnst 1/3 félagsmanna óska þess. Almennir fundir skulu auglýstir á tryggilegan máta með minnst 7 daga fyrirvara.

19. grein

Fráfarandi stjórn skal funda með nýrri stjórn innan mánaðar frá aðalfundi félagsins.

20.  grein

Félag listmeðferðarfræðinga á Íslandi á bókasafn sem er á ábyrgð stjórnar hverju sinni. Stjórn félagsins, hverju sinni, tilnefnir einn stjórnarmann sem ábyrgðarmann útlána. Aðgangur að bókasafninu skal aðgengilegur í samráði við tilgreinan ábyrgðarmann.

21.  grein

Með samþykkt þessara laga falla úr gildi eldri lög félagsins.

 


Viðbót við 8. grein laganna samþykkt á aðalfundi 20. apríl 2012.

Breytingar og viðbót við 8. grein, 9. grein, 10. grein, 13.  grein og bætt við viðbótargrein sem verður nr. 19. Samþykkt á aðalfundi 2. maí 2014.

Viðbótargrein sem verður nr. 20. Samþykkt á aðalfundi 30. apríl 2016.